ÓSÝNILEG ORKA

Gamall virðulegur karlmaður, grátt hár og klæðskersaumuð jakkaföt, situr í stól. Húðin nælonkennd, þunn og marglaga, líka jakkafötin en í dekkri lit. Þessi maður heitir Amos, við eyddum með honum löngum stundum, bjuggum hann raunar til úr striga, vír og nælonsokkabuxum.

Við kynntumst aldrei hinum raunverulega Amos Anderson en ást hans og okkar á myndlist tengir okkur saman í gegnum tíma og rými. Þetta dularfulla fyrirbæri, myndlistin, getur haft afdrifaríkar afleiðingar líkt og sólarljós sem lýsir í gegnum stækkunargler. Myndlist er eins og sinueldur, myndlist er segulstál.

Það var í Helsinki, borginni hans Amosar, á ARS´95 í norrænu listnemaprógrammi sem böndin milli okkar sem seinna stofnuðum Gjörningaklúbbinn byrjuðu að styrkjast. Við lítum því á Helsinki sem getnaðar borgina okkar.

Getnaður er stórfenglegt líkamlegt kraftaverk þar sem önnur ósýnileg orka, ástin, spilar oftast inn í. Þegar við sýndum í safninu hans Amosar gátum við ekki annað en fjallað um þetta kraftaverk, upphaf lífsins, litla stórakvell. Amos átti engin börn og hann hafði enga möguleika á að láta kraftaverk lífsins vaxa innan í sér. Innan í safninu hans eru samt afleiðingar margra slíkra kraftaverka að skoða, vinna og njóta.

Við buðum hópum af unglingum að koma í safnið og kynnast hugmyndum okkar og byggja um leið nýtt samfélag innan veggja safnsins, þar sem hver unglingahópur tók við af þeim næsta og hélt áfram að byggja á því sem fyrir var, breyta eða bæta. Allt úr næloni, iðnvæddri eftirlíkingu af silkiþræði silkiormsins, sem búið er að vefa í sokkabuxur. Vefnað sem legst þétt að rössum, lærum og fótum kvenna og stundum líka karla þegar þau smeygja neðri hluta líkama síns inn í þennan þunna menningarvef. Á kynþroskaskeiðinu verða kynnin við þennan vefnað oft nánari og kynbundnari sem endurspeglaðist í stöku flissi og vandræðagangi þátttakenda sem sumir voru að snerta nælonsokkabuxur í fyrsta sinn líkt og forboðinn ávöxt en einnig sást kankvískt glott sýningarstjóra safnsins sem þekkir þennan reynsluheim betur og öruggari handtök stúlkna sem sumar eru farnar að klæðast þessu ævintýralega sköpunarverki mannsandans. Að lokum var samvinnuherbergi unglinganna fullt af strektum nælonsokkabuxum föstum með krókum í veggi, gólf og loft með ýmsum tengingum, kynorku og gleði þess sem skapar.

Útkoman kveikti á hugmynd hjá okkur um rými „málað” úr nælonsokkabuxum nokkurs konar 3-D Pollock. Hugmyndin þróaðist og varð seinna hluti af Gjörningnum Hugsa minna – Skynja meira í Lilith Performance Studio í Malmö, einn getnaður leiðir af sér annan og annan og annan.

Ástin sigrar allt, tvímælaust.

Með miklu þakklæti fyrir frábært samstarf við undirbúning og uppsetningu á einkasýningunni TIGHT og gjörningnum POWER í og við Amos Anderson safnið í Helsinki árið 2010, góðar minningar og vináttu,

Gjörningaklúbburinn: Eirún, Jóní og Sigrún